Færsluflokkur: Bílar og akstur

Kjörstaðir í Kópavogi

Í tilefni af því að yfirkjörstjórn í Kópavogi ákvað að breyta kjörstöðum sendi ég eftirfarandi til þeirra, og reyndar sem grein í Moggann fyrir nokkru.

Lykilatriði í kosningum er að gera sem flestum kleyft að nýta atkvæðisrétt sinn á sem auðveldastan máta, með því að flytja kjörstaði úr hverfunum er verið að leggja stein í götu íbúa til að greiða atkvæði án þess að leggja í mikil ferðalög.

Kársnesskóli er til dæmis miðsvæðis á Kársnesinu og þangað fljótlegt að ganga hvaðanæva af því, færslan yfir í Smárann þýðir það eitt að þeir sem búa næst Smáranum munu ganga eilítið lengri vegalengd en áður, en aðrir íbúar þurfa að ganga margfalt lengra og ef veður er vont, að líkindum annað hvort taka bíl eða sitja heima. Staðan er mun verri fyrir önnur hverfi.

Spekin á bakvið það að öruggara sé að hópa saman fólki á tvo staði heldur en sex er umdeilanleg, rúmlega 21.000 Kópavogsbúar eru á kjörskrá. Dreift á sex staði eru það 3.500 manns per kjörstað en á tvo staði eru það 10.500 per kjörstað. Miðað við 100% kjörsókn og dreift yfir þá tólf tíma eða svo sem kjörstaðir eru opnir þá eru 291 sem kjósa á hverjum klukkutíma á hverjum kjörstað, rétt tæplega 5 á hverri mínútu. Fyrir tvo staði er talan hins vegar 875 per klukkutíma per kjörstað, sem eru rúmlega 14 manns á hverri mínútu.

Ef við kíkjum aftur í raunheima þá var kjörsókn við síðustu Alþingiskosningar 83,6% yfir landið, þetta þýðir að í stað 21.000 munu 17.500 mæta á kjörstað. Þá eru 8.750 sem mæta á hvorn kjörstað, eða 730 per klukkutíma, sem gerir 12 á hverri mínútu. 12 bílar á hverri mínútu þýðir að 5 sekúndur eru milli hvers ökutækis, ef miðað er við að hver kjósandi mæti á eigin bifreið. Ef fólk tvímennir er þarna bíll á ferðinni á 10 sekúndna millibili. Sömu tölur fyrir sex kjörstaði eru 4 bílar per mínútu, eða 2 ef fólk tvímennir. Það gefur auga leið að umferð er mun þyngri ef bíll er á ferð á tíu sekúndna fresti heldur en ef það er á þrjátíu sekúndna fresti. Við þetta bætist sú staðreynd að í þeim tilfellum þar sem kosið er í hverfinu eru minni líkur á að fólk mæti þar á eigin bifreið heldur gangi frekar þá stuttu vegalengd sem um ræðir.

Rök kjörstjórnar um að þetta auki umferðaröryggi eru því hjóm eitt, hvað aðgengið varðar þá er það líka vitleysa, maður er engu bættari að því að 3x-4x fleiri bílastæði séu á kjörstað ef 3x fleiri mæta þar og að auki flestallir á bíl, nokkuð sem gerist síður á hverfakjörstöðum. Margir eldri borgarar hafa ekki bíl til umráða og hafa takmarkað gönguþol, þetta verður því einkum bagalegt fyrir þá.

Eina hagræðið sem hægt er að sjá úr þessu eru færri starfsmenn á kjörstað og þar með minni launagreiðslur, þeir kjörklefar sem hefur verið komið upp hafa ekki þurft mikinn undirbúning né teppt skólastofur síðustu áratugi.

Þó að fara verði vel með peningana, þá á ekki að skera niður með því að minnka aðgengi fólks að kjörstöðum, auka umferð, lengja biðraðir og á flestan máta gera það tímafrekara og erfiðara að nýta sér atkvæðisrétt sinn. Kosningar eru undirstaða lýðræðisríkis, kjörsókn á Íslandi hefur iðulega verið með því hæsta sem gerist, aðgerðir sem þessar vísa í öfuga átt hvað svo sem reiknimeistari kjörstjórnar heldur.


Um bloggið

Jóhannes Birgir Jensson

Höfundur

Jóhannes Birgir Jensson
Jóhannes Birgir Jensson

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband