Þjóðaratkvæðagreiðslur, ekki setið heima

Hugmyndir manna um að í þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi í fyrsta lagi 75% kosningaþátttöku og í öðru lagi einnig 75% greiddra atkvæða eru andsnúnar lýðræðinu.

Það er svo að það þarf að greiða atkvæði til að taka þátt. Því á ekki að setja nein mörk á kosningaþátttöku, þeir sem eru andsnúnir tillögunni sem er borin undir atkvæði mæta á staðinn og kjósa eftir eigin höfði.

Í síðustu Alþingiskosningum var 83,6% kosningaþátttaka. Ef við segjum að þetta sé eðlileg tala, þá þýðir það að einungis þarf 9% að auki til þess að sitja heima og fella þar með þjóðaratkvæðið. Þar með hafa 9% kjósenda gengið gegn vilja (ef við segjum að allir sem mættu og kusu voru með tillögunni) 74,6% kjósenda og haft sigur.

Það þarf ekki að vera reiknimeistari til að sjá að þetta er ólýðræðislegt.

Kjarninn í lýðræðisþjóðfélagi er sá að þeir sem greiða atkvæði hafa með því sagt sitt álit. Það að sitja heima er ekki að taka þátt í lýðræðinu. Þeir sem greiða ógild atkvæði eða skila auðu eru aftur á móti að taka þátt.

Það er ólýðræðislegt að setja takmörk á kosningaþátttöku þar sem það færir óeðlilegt "atkvæðavægi" í hendur þeirra sem sitja heima. Ef þú vilt taka þátt þá mætirðu. Ef þér er sama þá ertu heima, flóknara er það ekki.

Það er svo annað mál að það á þegar í stað að hætta að spyrða saman ógildum og auðum atkvæðum, við eigum heimtingu á að vita hversu margir skiluðu auðu svo þar sé hægt að sjá hversu vel fólki lýst á þá valkosti sem eru í boði.


mbl.is Þjóðin fái að skera úr um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Í síðustu Alþingiskosningum var 83,6% kosningaþátttaka. Ef við segjum að þetta sé eðlileg tala, þá þýðir það að einungis þarf 9% að auki til þess að sitja heima og fella þar með þjóðaratkvæðið. Þar með hafa 9% kjósenda gengið gegn vilja (ef við segjum að allir sem mættu og kusu voru með tillögunni) 74,6% kjósenda og haft sigur."

Þetta eru hálfgerðar reikningskúnstir hjá þér og forsendurnar afar skringilegar.

Í 1. lagi voru (100%–83,6% =) 16,4% ekki að sitja hema, af því að þeir kæmust ekki, heldur margir vegna þess að þeir vildu ekki kjósa neina flokka.

Í 2. lagi veiztu ekkert um þessi 9%.

Í 3. lagi gæti þeim bara staðið slétt á sama og meira að segja verið þrisvar til fjórum sinnum fleiri en 9% (ekki er mikil þátttakan í kosningum til Evrópuþingsins), þ.e.a.s. ekki bara þeir sem væru á móti (sem væru reyndar miklu líklegri til að koma þá og kjósa á móti), heldur líka þeir sem létu þetta sig litlu skipta. Raunverulega er engin passion a baki fylgi við EBé hér nema hjá tiltölulega litlum hluta landsmanna, en þar af eru reyndar sumir mjög virkir og áberandi).

Í 4. lagi er aldeilis fráleitt að tala um, að 74,6% kjósenda – ALLIR sem mættu til kjörstaðar í dæmi þínu!!! – yrðu með EBé-innlimun okkar. Nú eru t.d. rúm 56% á MÓTI því að sækja um inngöngu í bandalagið!

Reiknaðu frekar: hvað eru 75% af 75%? Jú, það eru aðeins 56,25%.

Með hliðsjón af því, hvað hér er í húfi fyrir alla okkar framtíð (eða fram að næstu heimsstyrjöld), þá er það ekki mikið að áskilja það, að 56,25% fólks hér með kosningarétt þurfi til að afsala okkur landsréttindum sem það tók um heila öld að ávinna okkur.

Þessir, sem kjósa, eru ekki bara að gera það fyrir sig og sín börn, heldur allar komandi kynslóðir.

Við skuldum það bæði forfeðrum okkar, formæðrum og afkomendum að gera svona nokkuð einungis með mestu varúð, ef það verður gert, og með sem mestri samstöðu þjóðarinnar, en ekki að naumur meirihluti greiddra atkvæða merjist (eins og í Svíþjóð 1994: 52%), en það fylgi verði eftir nokkur ár komið niður í þriðjung (eins og í Svíþjóð 1998), án þess að þjóðin geti nokkru breytt þrátt fyrir það!

Líttu líka á það, hve ólýðræðislegt það væri, ef í raun hefðu aðeins 70% tekið þátt í kosningunni. Þá væru þessi 52% af 70%, sem kosið hefðu EBé, verið einungis 36,4% af öllum kosningabærum mönnum, en þeir hefðu þá samt ákveðið örlög þjóðarinnar og framsal æðsta löggjafarvalds hennar og yfirráð yfir miðunum milli 12 og 200 mílna fyrir alla framtíð.

Svo þarftu líka að horfa á ytri aðstæður:

1. Afar fésterkir aðilar innanlands hafa ausið fé í áróður í þessi mál: Samtök iðnaðarins o.fl. samtök og fyrirtæki atvinnurekenda.

2. Svo vill til, að af þremur dagblöðum landsins eru ÞRJÚ í eign og undir ritstjórn manna sem ekki aðeins fylgja EBé í huganum, heldur flytja fagnaðarerindi EBé daginn út og daginn inn. Þetta er augljós lýðræðishalli, og því er aukinn meirihluti líka nauðsynlegur þess vegna.

3. Svo er Evrópubandalagið sjálft með gígantískt áróðursbatterí, "það fjármagn sem Evrópusambandið hefur til umráða við að heilaþvo þá sem sitja inni á fréttastofum og búa til raunveruleikann fyrir okkur er svo mikið að það er meira og betra en þeir fjármunir sem risafyrirtækið Coca Cola notar í öllum heiminum á hverju ári (ESB eyðir tveim milljöðrum punda í áróður fyrir eigin ágæti - á hverju ári!)," segir Gunnar Rögnvaldsson, sá upplýsti maður, og vísar á heimildir um það (sjá http://tilveran-i-esb.blog.is/blog/tilveran-i-esb/entry/839665/ ). Þetta batterí getur bandalagið auðveldlega notað á laun, enda hefur verið misfarið þar með fé og þau hneykslismál barin niður, en ársreikningar EBé ekki fengizt endurskoðaðir í heil 14 ár! Dæmi um, að stórfé var ausið í gríðarlegan áróður með EBé-innlimun, eru frá Tékklandi og Svíþjóð. Í fyrrnefnda tilvikinu var um margfalt áróðursfé á við það, sem fór í baráttu andstæðinganna þar, og í Svíþjóð dugði þetta greinilega til að ráða úrslitum um atkvæðagreiðsluna.

4. Og vel að merkja er EBé um 1670 sinnum fólksfleira en okkar litla þjóð!

Taktu því afstöðu með vörnum okkar – m.a. lýðræðisvörnum – gegn þeim ágengu öflum, sem hafa í fullu tré við okkur, engu síður en t.d. Noregskonungur á 13. öld, en þá voru Norðmenn um þrisvar til fjórum sinnum fleiri en við, en það tók samt kónginn marga áratugi að ná Íslandi í veldi sitt og hafðist þó.

Með góðum óskum,

Jón Valur Jensson, 28.3.2009 kl. 04:19

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Ef menn telja það til bóta að ganga í ESB væri gott fyrsta skref að nota reglur sambandsins um kosningar. Í venjulegum málum á Evrópuþinginu dugir einfaldur meirihluti (393 atkvæði af 785 (sem er 50,06%)) en fyrir stærri mál gilda aðrar reglur. Reglur eru margs konar hjá stofnunum sambandsins.

Stundum er krafa um meirihluta allra atkvæða, ekki aðeins greiddra. Svo gilda reglur um "einróma samþykki" um ýmis mál, en þeim málflokkum verður fækkað um 50 með Lissabon samningnum. Samkvæmt sérstökum reglum sem Pólverjar sækja fast að verði teknar upp, þarf 61,4% atkvæða til samþykkis.

Í málum sem teljast mjög stór þarf "aukinn meirihluta". Framsal á hluta framkvæmdavalds og stórum hluta löggjafarvalds hlýtur að kalla á aukinn meirihluta. Það er beinlínis í anda ESB. Sér í lagi þegar málið krefst breytinga á stjórnarskrá.

Það þyrfti 20 síðna ritgerð til að gera öllum kosningareglum ESB tæmandi skil. Nýjar reglur (Lissabon) kveða á um að það þurfi 55% ríkja og fulltrúa 65% íbúa til að samþykkja mál. Ef málið kallar á aukinn meirihluta þarf 72% ríkja til samþykkis.

Í ráðherraráðinu þarf 74% atkvæða til að samþykkja mjög stór mál. Innganga Íslands í ESB er svo sannarlega mjög stórt mál. Í raun svo stórt að það er útilokað að réttlæta að t.d. 50,06% greiddra atkvæða dugi. Hvað þá án tillits til kjörsóknar.

Haraldur Hansson, 28.3.2009 kl. 10:50

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Síðuhöfundur, Jóhannes Birgir, hefur sennilega skrifað sína grein í þeirri von, að Íslandi verði komið inn í Evrópubandalagið, og hann krefst þess, að það verði unnt með einföldum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna er það frábærlega vel til fundið og upplýsandi innlegg sem kemur hér frá Haraldi Hanssyni og bendir þér, Jóhannes, á þá staðreynd, að í þessu Evrópubandalagi sjálfu eru nú þegar og verða trúlega áfram mjög eindregnar reglur um aukinn meirihuta í málum, og þar er jafnvel ennþá neitunarvald einstakra ríkja, þvert gegn yfirgnæfandi atkvæðavægi allra hinna.

Þess vegna skýtur það ákaflega skökku við, ef greinarhöfundur vill ekki unna litlu, sjálfstæðu ríki sinnar eigin þjóðar þess réttar að hafa sambærilegar varnir gegn mjög alvarlegri umbyltingu á löggjafar- og stjórnskipulagi sínu. Af hverju vill hann ekki fylgja fordæmi Evrópubandalagsins í þessu?!

Það er ekkert sjálfsagt, að skipulaginu verði auðveldlega hægt að bylta með einföldum meirihluta, þar sem jafnvel minnihluti kosningabærra manna væri að taka afdrifaríkar ákvarðanir fyrir alla framtíð þjóðarinnar. Það gæfi skammsýnum, tækifærissinnuðum stjórnvöldum færi á því, við tímabundnar aðstæður tízkuhreyfinga, efnahagsáfalla og lýðskrums, að fara út í gerræðislega umskiptingu á stjórnskipan okkar og hreina og beina atlögu gegn sjálfstæðinu, þ.e.a.s. með því að afsala okkur yfirráðum yfir þjóðarauðlindunum og æðsta löggjafar- og dómsvaldi til erlends ríkjabandalags.

Sýnum þá sjálfsvirðingu, Íslendingar, að hafa í löggjöf okkar engu slakari tryggingar fyrir stöðugleika grundvallarstjórnskipunar okkar heldur en Evrópubandalagið og okkar eigin samningsmenn árið 1918.

Jón Valur Jensson, 28.3.2009 kl. 12:17

4 Smámynd: Jóhannes Birgir Jensson

Sæll Jón Valur Jensson, ég sé að þér er enn ekki viðbjargandi.

Hvergi var minnst á ESB í þessum pistli mínum, allir þínir punktar eru því sjálfdauðir.

Ég var að ræða um þjóðaratkvæðagreiðslur almennt, hvort sem það er um ESB, stjórnarskrána eða annað. Augljóslega er ekki hægt annað en að þeir sem nýti atkvæði sitt segi til um lyktir mála, það er ótækt að með því að lítill hópur umfram þá sem venjulega sitji heima, nái að gera kosningu ógilda með því einu að mæta ekki.

Hlutfallskrafa um að af greiddum eða gildum atkvæðum (eftir að auð og ógild eru tekin frá) er eðlileg, hvort sem það yrði 66% eða 75% eða annað.

En það er fáránlegt að setja mörk um kjörsókn.

Jóhannes Birgir Jensson, 28.3.2009 kl. 12:17

5 Smámynd: Jóhannes Birgir Jensson

Ég sé að í virðist allt í einu orðinn helsti talsmaður ESB með því að fara fram á að menn mæti á kjörstað þegar þjóðaratkvæðagreiðslur fara fram. Hún er skrítin pólitíkin þegar menn mæta með svona rökleysur.

Ég bíð spenntur eftir því að menn gleymi ESB og tali um sjálft efni pistlar míns, hvort að atkvæði eigi ekki að teljast jöfn með því að menn mæti á kjörstað, eða hvort sum atkvæði eigi að vera jafnari en önnur með því að neita að greiða atkvæði.

Jóhannes Birgir Jensson, 28.3.2009 kl. 12:19

6 Smámynd: Haraldur Hansson

Jón Birgir: Það var mjög eðlilegt að álykta að þú ættir fyrst og fremst við þjóðaratkvæði um aðild að ESB þar sem þú tengir færsluna við frétt með fyrirsögninni "Þjóðin fái að skera úr um ESB-aðild".

En burtséð frá því getur færsla mín hér að ofan staðið sem innlegg í umræðu um atkvæðagreiðslur almennt.

Haraldur Hansson, 28.3.2009 kl. 12:33

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Með lokaorðum mínum áðan, "og okkar eigin samningsmenn árið 1918," var ég að vísa til ákvæða Sambandslaganna frá 1918 um aukinn meirihluta (2/3 þingmanna, 3/4 kjörsókn og 3/4 greiddra ákvæða) sem eru þar skilyrði fyrir uppsögn þeirra stjórnskipunarlaga, en fyrir því öllu geri ég ýtarlegri grein í þessum pistli: Sambandslögin 1918 gefa vegvísi um nauðsynlega skilmála kosninga um grundvöll ríkis vors.

Jóhannes vísar hér frá sér þeirri umræðu minni, að þetta mál snerti ekki hvað sízt hugsanlega innlimun okkar í Evrópubandalagið, og lætur sem hann hafi alls ekkert haft það í huga. Gefum okkur, að þar fari hann með rétt mál, en það breytir engu um þá staðreynd, að ábendingar mínar eiga fullkomlega rétt á sér um sérhverja þjóðaratkvæðagreiðslu sem snertir alvarlegar breytingar á stjórnskipan okkar og sér í lagi allar þær, sem fela í sér eða geta leitt af sér framsal eða afsal fullveldisréttinda íslenzka lýðveldisins. Engin hætta er nær því að vera yfirvofandi í því efni heldur en innganga okkar í Evrópubandalagið.

En kannski Jóhannes vilji upplýsa okkur um, að sjálfur sé hann andvígur því, að sótt verði um inngöngu í þetta yfirríkjabandalag?

Jón Valur Jensson, 28.3.2009 kl. 12:35

8 Smámynd: Jóhannes Birgir Jensson

Það sem ég setti út á Haraldur er ekki hlutfall atkvæða sem þarf til, heldur hlutfall þeirra sem þurfa að greiða atkvæði. Eins og litla reiknilíkanið mitt sýndi fram á (óháð því hvort um er að ræða kosningar til ESB eða annars) þá veitir krafan um kjörsókn litlum hópi óeðlilega mikil völd.

Til þess að hafa eitthvað um málið að segja þurfa menn að mæta og greiða atkvæði, flóknari kröfu geri ég ekki á hendur þjóðaratkvæðagreiðslum. Að sitja heima og ógilda þar með atkvæði annara er ólýðræðislegt og á ekki að geta gerst.

Jóhannes Birgir Jensson, 28.3.2009 kl. 12:39

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Í stórum málum, sem skipta menn miklu, mæta þeir til kosninga, Jóhannes, ella eru þeir að hafa áhrif í þá átt, að greidd atkvæði virðist styðja um of málstað andstæðinganna. Gerðu til dæmis ekki ráð fyrir því, að ég myndi sitja heima, ef hér væri kosið um það, hvort við ættum að innlimast í annað ríki eða ríkjabandalag!

Jón Valur Jensson, 28.3.2009 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jóhannes Birgir Jensson

Höfundur

Jóhannes Birgir Jensson
Jóhannes Birgir Jensson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband