Viljinn eða formið rétthærri?

Það er nú svo að þeir sem veljast í yfirkjörstjórnir eru stundum meira við hugann við formsatriði en vilja kjósenda. Í kosningum þar sem ég sá um umsjón talningar voru atkvæði þar sem viljinn kom skýrt fram en formgalli var á, úrskurðuð ólögleg.

Þá hafði kjósandi sumsé raðað fólki frá 1 upp í 8, en samkvæmt forminu átti aðeins að telja upp í 7. Mér fannst eðlilegast að vilji þessa kjósanda væri virtur og tölur hans frá 1 upp í 7 væru taldar til atkvæða. Formaður kjörstjórnar ákvað hins vegar að þetta væri klárlega ógilt atkvæði þar sem á því væri þessi formgalli.

Kjósandi sem lét vilja sinn í ljós var því sviptur atkvæði sínu fyrir þá sök að skrifa 8 við einn frambjóðandann.

Þau atkvæði sem eru hins vegar klárlega ógild (sömu tölur endurteknar, krotað yfir sömu númer, erfitt að sjá hver var endanleg niðurstaða, vísur og kvæði sem þannig persónugreina nafnlausar kosningar) eiga að sjálfsögðu að vera það, en það er varla persónugreinanlegt að hafa skrifað einni tölu meira en flestir aðrir (voru nokkur svona atkvæði þar sem farið var upp fyrir sjöuna).

Spurningin er, á atkvæðisrétturinn að njóta vafans eða formið sem kjörstjórn ákveður? Ég er klárlega á því að þetta atkvæði hafi verið löglegt og sýnt vilja kjósandans.

Hvað þetta varðar þá er nokkuð ljóst að það er formsatriði sem kjörstjórn hefur ákveðið með sjálfri sér að kjördæmið sé tekið fram, það er ekki að finna í lögum. Ef kjörstjórnir vilja að ákveðnum formlegheitum sé framfylgt eiga þær að gefa það út með leiðbeiningum og viðeigandi formum sem aðilar geta nálgast, ella eru þetta bara tiktúrur hjá þeim sem samræmist ekki lögum og lýðræðislegum hefðum.


mbl.is Kjörstjórn klofnaði í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjörstaðir í Kópavogi

Í tilefni af því að yfirkjörstjórn í Kópavogi ákvað að breyta kjörstöðum sendi ég eftirfarandi til þeirra, og reyndar sem grein í Moggann fyrir nokkru.

Lykilatriði í kosningum er að gera sem flestum kleyft að nýta atkvæðisrétt sinn á sem auðveldastan máta, með því að flytja kjörstaði úr hverfunum er verið að leggja stein í götu íbúa til að greiða atkvæði án þess að leggja í mikil ferðalög.

Kársnesskóli er til dæmis miðsvæðis á Kársnesinu og þangað fljótlegt að ganga hvaðanæva af því, færslan yfir í Smárann þýðir það eitt að þeir sem búa næst Smáranum munu ganga eilítið lengri vegalengd en áður, en aðrir íbúar þurfa að ganga margfalt lengra og ef veður er vont, að líkindum annað hvort taka bíl eða sitja heima. Staðan er mun verri fyrir önnur hverfi.

Spekin á bakvið það að öruggara sé að hópa saman fólki á tvo staði heldur en sex er umdeilanleg, rúmlega 21.000 Kópavogsbúar eru á kjörskrá. Dreift á sex staði eru það 3.500 manns per kjörstað en á tvo staði eru það 10.500 per kjörstað. Miðað við 100% kjörsókn og dreift yfir þá tólf tíma eða svo sem kjörstaðir eru opnir þá eru 291 sem kjósa á hverjum klukkutíma á hverjum kjörstað, rétt tæplega 5 á hverri mínútu. Fyrir tvo staði er talan hins vegar 875 per klukkutíma per kjörstað, sem eru rúmlega 14 manns á hverri mínútu.

Ef við kíkjum aftur í raunheima þá var kjörsókn við síðustu Alþingiskosningar 83,6% yfir landið, þetta þýðir að í stað 21.000 munu 17.500 mæta á kjörstað. Þá eru 8.750 sem mæta á hvorn kjörstað, eða 730 per klukkutíma, sem gerir 12 á hverri mínútu. 12 bílar á hverri mínútu þýðir að 5 sekúndur eru milli hvers ökutækis, ef miðað er við að hver kjósandi mæti á eigin bifreið. Ef fólk tvímennir er þarna bíll á ferðinni á 10 sekúndna millibili. Sömu tölur fyrir sex kjörstaði eru 4 bílar per mínútu, eða 2 ef fólk tvímennir. Það gefur auga leið að umferð er mun þyngri ef bíll er á ferð á tíu sekúndna fresti heldur en ef það er á þrjátíu sekúndna fresti. Við þetta bætist sú staðreynd að í þeim tilfellum þar sem kosið er í hverfinu eru minni líkur á að fólk mæti þar á eigin bifreið heldur gangi frekar þá stuttu vegalengd sem um ræðir.

Rök kjörstjórnar um að þetta auki umferðaröryggi eru því hjóm eitt, hvað aðgengið varðar þá er það líka vitleysa, maður er engu bættari að því að 3x-4x fleiri bílastæði séu á kjörstað ef 3x fleiri mæta þar og að auki flestallir á bíl, nokkuð sem gerist síður á hverfakjörstöðum. Margir eldri borgarar hafa ekki bíl til umráða og hafa takmarkað gönguþol, þetta verður því einkum bagalegt fyrir þá.

Eina hagræðið sem hægt er að sjá úr þessu eru færri starfsmenn á kjörstað og þar með minni launagreiðslur, þeir kjörklefar sem hefur verið komið upp hafa ekki þurft mikinn undirbúning né teppt skólastofur síðustu áratugi.

Þó að fara verði vel með peningana, þá á ekki að skera niður með því að minnka aðgengi fólks að kjörstöðum, auka umferð, lengja biðraðir og á flestan máta gera það tímafrekara og erfiðara að nýta sér atkvæðisrétt sinn. Kosningar eru undirstaða lýðræðisríkis, kjörsókn á Íslandi hefur iðulega verið með því hæsta sem gerist, aðgerðir sem þessar vísa í öfuga átt hvað svo sem reiknimeistari kjörstjórnar heldur.


Svona á að gera þetta

Flokksfélagar mínir í Sjálfstæðisflokknum eru önnum kafnir við að gera sig að fíflum og halda áfram að sarga undan þeirri virðingu sem sumir héldu að Alþingi héldi enn, sjálfur vill ég meina að virðing Alþingis sé löngu farin á stall með sóðaknæpum.

Katrín fyrrum skólasystir í MK er sómakona og líkt og fleiri þingmenn með börn heimavið. Að halda þingfundi frameftir kveldi og nóttu er bara skammarlegt, að tefja þingfundi til að tefja er ekki síður skammarlegt og að haga sér eins og asnar er líka skammarlegt.

Það er hins vegar ekkert skammarlegt við það að nota kjarnyrta íslensku, formlegheitin og jakkafötin á Alþingi hafa verið túlkuð sem hluti af virðingunni þegar þau hafa í raun verið Pótemkín-tjöld og falið sóðaganginn sem þar hefur farið fram.


mbl.is „Hættið þessu helvítis væli"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólýðræðisleg þjóðaratkvæði

Ég minni á pistil minn um sanngirni þess að hægt sé að fella þjóðaratkvæði með því að nýta sér ekki kosningarétt sinn.

Lágmarkskrafa hlýtur að vera (óháð því um hvað er verið að kjósa) að þeir sem mæti á kjörstað segi til um lyktir málsins, ekki þeir sem sitja heima.

Kröfur um kjörsókn eru því ólýðræðislegar.


mbl.is Nálgast Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtileg undanfærsla

Nýja stefnan hjá Morgunblaðinu er að tiltaka alþingismennina sem eru í kjöri, sem útilokar ekki að aðrir séu í kjöri (allir í salnum reyndar) eða hafi boðið sig fram (sjá síðustu færslu á undan).

Þetta er að sjálfsögðu mun betra en að ljúga því að tveir séu í framboði líkt og gert var, og gert er enn á öðrum fjölmiðlum.

Sjálfur er ég búinn að kjósa og kominn heim, skipulagning kjörsins er einstaklega asnaleg og þar sem ég er rétt byrjaður að skríða saman eftir pest þá hafði ég ekki orku í að vera lengur, hvað þá að taka þátt í varaformannskjörinu.

Landsfundarfulltrúar áttu fyrst allir að troða sér inn í salinn, hurðum svo lokað og svo opnað öðru megin og fara átti hringinn, út þar og inn aftur hinum megin. Dyrnar inn aftur voru þó ekki opnaðar strax, þvaga myndaðist og þeir sem voru að koma aftur inn fundu svo fyrir stútfullan sal.

Af hverju ekki var hægt að kjósa bæði formann og varaformann í sömu ferð er undarlegt. Ennþá skrítnara er að ekki hafi verið hægt að skila atkvæðinu inn eftir eigin hentugleika líkt og fyrir miðstjórnarkjörið, en þar var kjörkassi tiltækur í tvo tíma þegar fólki hentaði að skila inn atkvæði sínu.


mbl.is Formannskjör hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftir landsfund þá?

Andri Óttarsson er líklega sá sem ákvað að framboð Bjarna Benediktssonar væri þess verðugt að fara á forsíðu www.xd.is en framboð okkar hinna ekki. Jafnframt hefur flokkurinn ekki leiðrétt rangfærslur fjölmiðla um hverjir hafi boðið sig fram í formannsembættið.

Það er því mikið gleðiefni að flokkurinn verði opnaður... en þá líklega eftir landsfundinn....

Þeir sem hafa lýst yfir framboði eru annars (í tímaröð):

  • Geir Hilmar Haarde (dró framboð til baka)
  • Snorri Ásmundarson (ekki kjörgengur enda ekki landsfundarfulltrúi)
  • Jóhannes Birgir Jensson
  • Bjarni Benediktsson
  • Loftur Þór Altice
  • Kristján Þór Júlíusson
Gangi gestum vel að finna meira en framboð Geir Haarde og Bjarna Benediktsson á vefsíðu flokksins.
mbl.is „Þurfum að opna flokkinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðaratkvæðagreiðslur, ekki setið heima

Hugmyndir manna um að í þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi í fyrsta lagi 75% kosningaþátttöku og í öðru lagi einnig 75% greiddra atkvæða eru andsnúnar lýðræðinu.

Það er svo að það þarf að greiða atkvæði til að taka þátt. Því á ekki að setja nein mörk á kosningaþátttöku, þeir sem eru andsnúnir tillögunni sem er borin undir atkvæði mæta á staðinn og kjósa eftir eigin höfði.

Í síðustu Alþingiskosningum var 83,6% kosningaþátttaka. Ef við segjum að þetta sé eðlileg tala, þá þýðir það að einungis þarf 9% að auki til þess að sitja heima og fella þar með þjóðaratkvæðið. Þar með hafa 9% kjósenda gengið gegn vilja (ef við segjum að allir sem mættu og kusu voru með tillögunni) 74,6% kjósenda og haft sigur.

Það þarf ekki að vera reiknimeistari til að sjá að þetta er ólýðræðislegt.

Kjarninn í lýðræðisþjóðfélagi er sá að þeir sem greiða atkvæði hafa með því sagt sitt álit. Það að sitja heima er ekki að taka þátt í lýðræðinu. Þeir sem greiða ógild atkvæði eða skila auðu eru aftur á móti að taka þátt.

Það er ólýðræðislegt að setja takmörk á kosningaþátttöku þar sem það færir óeðlilegt "atkvæðavægi" í hendur þeirra sem sitja heima. Ef þú vilt taka þátt þá mætirðu. Ef þér er sama þá ertu heima, flóknara er það ekki.

Það er svo annað mál að það á þegar í stað að hætta að spyrða saman ógildum og auðum atkvæðum, við eigum heimtingu á að vita hversu margir skiluðu auðu svo þar sé hægt að sjá hversu vel fólki lýst á þá valkosti sem eru í boði.


mbl.is Þjóðin fái að skera úr um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bryndís úti

Það er skömm að sjá að í stað þess að Bryndís Haraldsdóttir færist upp í 7. sætið eftir brotthvarf Ármanns, þá stóð henni það ekki til boða. Hún virðist með bein í nefinu, kostur sem er sjaldgæfur meðal stjórnmálamanna, og lætur því ekki traðka á sér og tekur ekki sæti.

Kjördæmisráðið hefur þarna hlaupið á sig, að sjálfsögðu átti hún að færast upp fyrst Ármann tók sínu gengi svona illa, lopapeysan stuðaði fólk í öfuga átt miðað við það sem hefði gerst í Ameríkunni.


mbl.is D-listi í Suðvesturkjördæmi birtur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Jóhannes Birgir Jensson

Höfundur

Jóhannes Birgir Jensson
Jóhannes Birgir Jensson

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband